Skrifaðu þig inn í skapandi greinar

Málþing um hagnýtingu nemendarannsókna

18. júní kl. 13-15.30

Í húsakynnum Tónlistarmiðstöðvar, Austurstræti 5

Fyrr á árinu veitti stjórn Rannsóknaseturs skapandi greina tveimur styrkjum til meistaranema sem unnu rannsóknaverkefni um atvinnulíf menningar og skapandi greina. Báðir nemar luku verkefnum sínum nú í vor og ákvað RSG að efna til málþings til að ræða niðurstöður þeirra og almennt hagnýtingargildi nemendarannsókna fyrir atvinnulíf og stjórnsýslu menningar og skapandi greina.

Yfirskrift málþingsins er Skrifaðu þig inn í skapandi greinar og dagskráin samanstendur af þremur erindum og pallborði, auk kaffihlés og kynningar á næstu úthlutun úr meistaranemasjóði RSG. Lesa má nánar um erindin hér að neðan.

Dagskrá

Kynningar

Fljúgum ekki ein 
Dreifing og móttaka íslenskra kvikmynda á alþjóðamarkaði 
Júlíus Jóhannesson 

Markmiðið með rannsókninni er að varpa ljósi á þá þætti sem stuðla að velgengni íslenskra kvikmynda á evrópskum kvikmyndamarkaði. Rannsóknin tekur til allra íslenskra kvikmynda sem frumsýndar voru í kvikmyndahúsum á árunum 2000 til 2019 og  leiðir í ljós að innan íslenska kvikmyndaiðnaðarins eru skýr skil á milli kvikmynda sem framleiddar eru sérstaklega fyrir innanlandsmarkað og kvikmynda sem ætlaðar eru til alþjóðlegrar dreifingar. Niðurstöðurnar hafa þýðingu fyrir íslenskt kvikmyndagerðarfólk sem leitast við að ná árangri á alþjóðavettvangi, fagfólk í íslenskum kvikmyndaiðnaði og stefnumótunaraðila til að skilja og greina betur gangverk evrópsks kvikmyndaiðnaðar.

Áhorfendaþróun innan sviðslistastofnana á Íslandi 
Samsetning áhorfenda og leiðir til frekari þróunar 
Lilja Björk Haraldsdóttir 

Með rannsókninni er leitast við að greina fjölbreytileika í samsetningu áhorfenda innan sviðslistastofnana á Íslandi. Rannsóknin leiddi í ljós að ákveðinn kjarnahóp er að finna meðal áhorfenda stofnananna og að auka megi fjölbreytileika áhorfenda með því að reyna að ná til breiðari hóps. Aukinn skilningur á áhorfendaþróun nýtist í opinberri stefnumótun í menningarmálum og listum, þar sem það hefur bein áhrif á aðgengi og þátttöku í menningarlífinu. Þannig er mikilvægt fyrir framtíðar menningarstjórnendur að vera vel upplýst um aðferðir, áhrif og möguleika áhorfendaþróunnar, til að mæta áskorunum og nýta tækifærin sem felast í tengslum við áhorfendur og þróun þeirra.  

Gögn og þjálfun gagnafærni 
Arndís Vilhjálmsdóttir

Mikilvægi gagna til tölfræðilegra greininga hefur aukist gríðarlega samfara stafvæðingu samfélagsins og áhrifum þess á neyslu- og framleiðslu. Gögn eru orðin miðjupunktur þessarar þróunar þar sem þau liggja bæði til grundvallar hennar, en eru líka afurð þess að nota hina stafrænu tækni. Augljós forsenda fyrir nýtingu þessara gagna er að til séu innviðir sem leyfa aðgengi að þeim og árangursríka nýtingu þeirra. Í því samhengi er ekki bara mikilvægt að bæta aðgengi að gögnum, heldur einnig að byggja upp færni í nýtingu þeirra. Í samræmi við þetta hefur Hagstofa Íslands unnið markvisst að því að opna aðgengi að gögnum sínum til rannsókna og greininga, auk þess að styðja við þjálfun gagnafærni í samstarfi við íslenska háskóla. Þannig hefur Hagstofan skrifað undir viljayfirlýsingu um að veita háskólanemum í framhaldsnámi tækifæri til að vinna að verkefnum tengdu námi þeirra í samstarfi við Hagstofuna. Með samkomulaginu er metnaðarfullum nemendum gert kleift að vinna að mikilvægum aðferðafræðilegum verkefnum eða rannsóknartengdum verkefnum á íslensku efnahags- og atvinnulífi og þannig auka við þekkingu sína og færni við meðferð gagna og reynslu sína af rannsóknarvinnu. Samkomulagið gerir Hagstofunni kleift að auka gæði sinna gagna með því að fá til liðs við sig nemendur til að sinna afmörkuðu, tímabundnu verkefni sem mun, til lengri tíma litið, bæta starfsemi Hagstofunnar og þær afurðir sem frá henni koma. Aukin gæði og betri afurðir eru að auki til bóta fyrir fræðasamfélagið í heild sinni þegar litið er til framtíðar. Í fyrirlestrinum verður fyrirkomulag slíkra verkefna kynnt auk þess sem fjallað verður um þróun á nýjum rannsóknagagnagrunni Hagstofunnar, Gagnaglugganum.