
Verkefni í vinnslu
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús
Hagrænt fótspor Hörpu
Harpa tónlistar- og ráðstefnuhús hefur samið við Rannsóknasetur skapandi greina um greiningu á hagrænum áhrifum Hörpu. Áhrifin verða skoðuð út frá menningar- og ráðstefnustarfsemi Hörpu, rekstri og útleigu fasteignarinnar og þeirri þjónustu sem veitt er af þriðja aðila í húsnæðinu. Lagt verður mat á beint, óbeint og afleitt framlag þessarar starfsemi til hagkerfisins og hins opinbera. Í undirbúningi fyrir rannsóknina var litið til erlendra fyrirmynda að sambærilegum úttektum á hagrænum áhrifum annarra tónlistar- og/eða ráðstefnuhúsa víða um heim. Leitað verður til ýmissa samstarfs- og hagaðila Hörpu við gagnaöflun og greiningarvinnu, svo sem Meet in Reykjavík, Tónlistarmiðstöðvar og stærri viðburðahaldara. Ágúst Ólafur Ágústsson, hagfræðingur, vinnur skýsluna í samstarfi við RSG. Gert er ráð fyrir að niðurstöðurnar verði kynntar snemma vors 2025.
Rannsóknir meistaranema
Rannsóknaverkefni á sviðum sviðslista og menningartölfræði
Þann 7. janúar veitti stjórn Rannsóknaseturs skapandi greina styrki úr meistaranemasjóði setursins. Styrkirnir eru ætlaðir meistaranemum sem vinna að lokaverkefni um atvinnulíf menningar og skapandi greina og þau fjölþættu og fjölbreyttu samfélags- og efnahagsáhrif sem þessi starfsemi leiðir af sér.
Tvö verkefni hlutu styrk úr sjóðnum og eru nú í vinnslu:
Í meistaraverkefninu Óbærilegur léttleiki leikhússins: Uppgangur alþýðuleiklistar á Íslandi rannsakar Björg Steinunn Gunnarsdóttir hvernig tiltekin leiksýning, Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar, náði að laða að nýjan áhorfendahóp í íslenskt leikhús og hvaða lærdóm megi draga af því fyrir framtíðarleikhús. Markmið verkefnisins er að greina velgengnisþætti sýningarinnar og skoða hvort og hvernig megi endurtaka þennan árangur með öðrum sýningum byggðum á formgerð alþýðuleiklistar, með áherslu á menningarlega fjölbreytni og lýðræði. Ásamt því að bæta við þekkingarsvið íslenskra leikhúsfræða opnar verkefnið á möguleika til frekari þverfaglegra rannsókna en ýmislegt mætti yfirfæra á aðra kima menningar og skapandi greina.
Í verkefninu Er menning máttur? Greining á stefnu sveitarfélaga í menningu og skapandi greinum, rannsakar Helga Guðrún Jónasdóttir hvort sveitarfélög hafi markað sér stefnu á sviði menningar og hvort lesa megi úr þeirri stefnumörkun afstöðu hjá viðkomandi sveitarstjórn til menningar og skapandi greina sem verðmætaskapandi sviðs innan sveitarfélagsins. Samhliða kannar hún hvort sjá megi stefnumörkun sveitarfélaga stað í útgjöldum þeirra til menningarmála. Rannsóknarspurningar verkefnisins líta til menningarstefnu sem skýringarbreytu (spágildi) fyrir afstöðu sveitarstjórna til menningar og skapandi greina sem leið til að stuðla að efnahagslegum vexti. Með greiningu á menningarstefnu sveitarfélaga myndast yfirsýn yfir þennan málaflokk á sveitarstjórnarstigi, sem hefur ekki fengist áður, ásamt þekkingu sem nýst getur haghöfum á borð við sveitarfélög, landshlutasamtök og ríki til að undirbyggja betur en áður umræðu og stefnumarkandi ákvarðanir á þessu sviði.
Niðurstöður rannsóknanna verða kynntar á málþingi RSG haustið 2025.