
Rannsóknasetur skapandi greina
Rannsóknasetur skapandi greina
Rannsóknasetur skapandi greina var stofnað árið 2023. Stofnaðilar eru Háskólinn á Bifröst, Háskóli Íslands, Háskólinn á Akureyri, Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Hólum.
Rannsóknasetrið er umsýslað af Háskólanum á Bifröst.
Stefna og markmið
Meginmarkmið Rannsóknaseturs skapandi greina (RSG) er að efla rannsóknir á atvinnulífi menningar og skapandi greina, með hliðsjón af fjölþættum áhrifum listsköpunar og menningarframleiðslu á samfélagið. RSG er óháður rannsóknaraðili og leggur áherslu á akademískt sjálfstæði í allri starfsemi. Rannsóknasetrið sinnir fjölbreyttum rannsóknum og greiningum á atvinnulífi menningar og skapandi greina og vinnur að því að styrkja rannsóknamenningu og -innviði á þessu sviði.
Stefna Rannsóknaseturs skapandi greina er
Að vera leiðandi í mótun nýrra rannsóknaverkefna með sókn í rannsóknasjóði
Að kortleggja og miðla fjölbreyttum áhrifum skapandi greina á samfélagið
Að efla gagnaöflun og auka gæði og samræmi gagna sem geta nýst við fjölbreyttar rannsóknir á atvinnulífi menningar og skapandi greina
Að skapa stöðugt rannsóknarumhverfi og stuðla að nýliðun meðal sérfræðinga og fræðimanna á þessu sviði
Að stuðla að samráði og samstarfi háskóla, stofnana, stjórnvalda og atvinnulífs og efla fræðandi umræðu, tengslamyndun og miðlun þekkingar um atvinnulíf menningar og skapandi greina
Að fylgjast með alþjóðlegum stefnum og straumum í rannsóknum á þessu sviði og efla alþjóðlegt tengsanet
Starfsemi RSG snýr þannig annars vegar að rannsóknum, greiningum og gagnasöfnun sem ýmist tengjast sókn í rannsóknasjóði eða eru unnar fyrir tilstuðlan verkbeiðenda. Hins vegar eru samskipti og miðlun mikilvægur hluti starfseminnar en í því felst samstarf við fagvettvang, fræðafólk og stjórnvöld, ráðgjöf um rannsóknir og gagnamál og miðlun á verkefnum, bæði frá RSG og öðrum.
Menning og skapandi greinar
Listir og sköpun eru auðlindir sem lúta eigin lögmálum. Menning er það sem þær gefa af sér til samfélagsins. Menning og skapandi greinar er samheiti yfir listir, sköpun, hugverk og menningu, og það atvinnu- og viðskiptalíf sem af þeim skapast.
Halla Helgadóttir, 2020
Skapandi greinar eru vaxandi drifkraftur í verðmætasköpun og samfélagslegri þróun hér á landi, sem annarsstaðar. Fólk sem starfar í skapandi greinum hagnýtir listsköpun og menningu til verðmætasköpunar, hvort heldur efnahagslegrar eða samfélagslegrar.
Til skapandi greina teljast meðal annars bókmenntir, fjölmiðlun, hönnun og arkitektúr, kvikmynda og sjónvarpsþáttagerð, safnastarf og miðlun menningararfs, myndlist og starfsemi gallería, sviðslistir, tónlist, prentun, tölvuleikjagerð og starfsemi auglýsingastofa.