Nýtum námið! RSG þakkar fyrir málþing um hagnýtingu nemendarannsókna

Á málþingi í Tónlistarmiðstöð 18. júní síðastliðinn veittu fjölbreyttir aðilar innsýn inn í rannsóknir sínar um skapandi greinar, rannsóknarhugmyndir og tækifæri sem standa nemendum til boða. 

Arndís Vilhjálmsdóttir, rannsóknastjóri Hagstofu Íslands, fræddi áheyrendur um gögn og þjálfun gagnafærni og gerði grein fyrir síaukinni gagnaþörf samfélagsins í dag. Hagstofan vinnur að því að efla gagnainnviði, aðgengi að gögnum og hlutverk sitt sem hluti af rannsóknarinnviðum. Í því samhengi var komið inn á reynslu Hagstofunnar af aðkomu nemenda að verkefnum stofnunarinnar. 

Júlíus Jóhannesson kynnti meistararannsókn sína á dreifingu og móttöku íslenskra kvikmynda á alþjóðamarkaði. Hún varpar ljósi á þá þætti sem stuðla að velgengni íslenskra kvikmynda erlendis og leiðir í ljós að innan íslenska kvikmyndaiðnaðarins eru skýr skil á milli kvikmynda sem framleiddar eru sérstaklega fyrir innanlandsmarkað og kvikmynda sem ætlaðar eru til alþjóðlegrar dreifingar. Ýmsir þættir voru skoðaðir til þess að skoða velgengni kvikmynda erlendis, svo sem landslag, kvikmyndahátíðir og tungumál. Mikil þörf er á frekar rannsóknum um viðfangsefnið en um er að ræða fyrstu megindlegu rannsóknina sem framkvæmd er á þessum vettvangi. 

Lilja Björk Haraldsdóttir kynnti meistararannsókn sína um áhorfendaþróun innan sviðslistastofnana á Íslandi þar sem leitast var við að greina fjölbreytileika í samsetningu áhorfenda innan stofnananna. Rannsóknin leiddi í ljós að ákveðinn kjarnahóp er að finna meðal áhorfenda stofnananna, en hann samanstendur af menntuðum millistéttarkonum á miðjum aldri. Stofnanirnar vilja taka samfélagslegt hlutverk sitt alvarlega en gætu verið markvissari í að auka fjölbreytileika áhorfenda með því að reyna að ná til breiðari hóps. Lilja benti á að rannsóknum um áhorfendaþróun á Íslandi er ábótavant. 

Anna Hildur Hildibrandsdóttir stýrði pallborði þar sem fræðandi fólk veitti áheyrendum innsýn inn í þær nemendarannsóknir sem gerðar hafa verið innan fyrirtækis/stofnunar viðkomandi, styrktækifæri sem standa nemendum til boða, atvinnutækifæri sem bjóðast í kjölfar náms og hugmyndir að rannsóknum sem brýnt þykir að framkvæma. 

RSG þakkar fyrir komuna, samtalið og áheyrnina. Fyrirhugað er að gera tillögur að nemendaverkefnum aðgengilegar á vefsíðu setursins í von um að unnt verði að nýta krafta nemenda í rannsóknir um skapandi greinar.

Horfa má á erindin hér.

Previous
Previous

RSG leitar að liðsauka

Next
Next

Málþing um gildi nemendarannsókna