„Hörpu-áhrifin“ eru hundruð starfa, milljarðar í tekjur og gróska í menningarlífinu
Bein, óbein og afleidd efnahagsleg áhrif af starfseminni í Hörpu nema árlega um 10 milljörðum króna. Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarseturs skapandi greina um „Hörpu-áhrifin“ sem unnin er af Ágústi Ólafi Ágústssyni hagfræðingi og lögfræðingi að frumkvæði Hörpu.
Helstu niðurstöður skýrslunnar sýna að Hörpu-áhrifin fela í sér töluverða verðmætasköpun, eða virðisauka, upp á 10 milljarða króna og heildarskatttekjur upp á 9 milljarða, sem er rúmlega 15 sinnum hærri en hið sérstaka rekstrarframlag sem hið opinbera, ríki og Reykjavíkurborg, leggur nú til Hörpu. Þá kemur fram að um 650 störf megi rekja með beinum og óbeinum hætti til starfseminnar í Hörpu.
„Það var ánægjulegt og áhugavert að vinna þessa mikilvægu greiningu fyrir Hörpu og við erum afar stolt af skýrslunni og þeirri vinnu sem Ágúst Ólafur lagði í verkefnið,“ segir Erla Rún Guðmundsdóttir, forstöðukona Rannsóknarseturs skapandi greina, í tilefni útgáfunnar. „Hagrænu áhrifin eru miðpunktur þessa vinnu en þörf er á frekari rannsóknum til að leggja mat á samfélagsleg og menningarleg áhrif. Það er von okkar hjá Rannsóknasetri skapandi greina að vinna við slíkar rannsóknir aukist. Við mótun þessarar rannsóknar og gagnaöflun komu fram ýmis dæmi um þau víðtæku áhrif sem tilkoma Hörpu hefur haft á atvinnulíf menningar og skapandi greina og samfélagið allt.“
Í stuttu máli
10 milljarðar króna árleg verðmætasköpun og virðisauki.
5 sinnum meiri verðmætasköpun en nemur rekstrarkostnaði Hörpu.
9 milljarðar króna í árlegar skatttekjur.
650 störf skapast vegna starfsemi Hörpu, þar af 380 óbein og afleidd störf.
Starfsemin styður við menningu, atvinnulíf, ferðaþjónustu, hótel- og veitingarekstur, tækniþjónustu og skapandi greinar.
Fjölbreytt viðburðahald: Árlega haldnir um 1.400 viðburðir, þar á meðal 811 listviðburðir, 560 ráðstefnur og 191 leiksýning.
2024 gott ár í rekstri Hörpu
Skýrsla Rannsóknarseturs skapandi greina var kynnt á aðalfundi Hörpu mánudaginn 31. mars. Á fundinum kom fram að rekstrarhagnaður Hörpu væri rétt rúmlega þrjú hundruð milljónir króna og voru tekjur af starfseminni tæplega 1.900 milljónir króna á árinu. Líkt og kemur fram í skýrslunni var rekstur Hörpu þungur í gegnum COVID-faraldurinn. Svanhildur Konráðsdóttir, forstjóri Hörpu, segir greiningarvinnu Rannsóknarseturs skapandi greina góðan vegvísi fram á veginn.
„Við erum virkilega ánægð með þessa áframhaldandi bætingu í rekstrinum sem náðist með samstilltum metnaði alls starfsfólks Hörpu. Árið er það besta frá upphafi og fyrir það ber að þakka. Fjöldi og fjölbreytni viðburða, öflug miðasala og sterk bókunarstaða fyrir komandi misseri sýna skýrt að Harpa er miðpunktur menningarlífs og alþjóðlegra viðburða á Íslandi.
Það er líka sérstaklega ánægjulegt að vera búin að fá greiningu á efnahagslegum áhrifum Hörpu og dregur skýrslan fram að verðmætasköpunin fyrir hagkerfið – og þar með samfélagið - er sambærileg eða meiri en áhrif annarra stórra menningarhúsa á borð við Óperuhúsið í Sydney og tónlistarhúsið í Hamborg.
Við komum einnig inn í 2025 með ferska stefnumörkun til ársins 2030 sem unnin var með þátttöku yfir hundrað manns. Áfram störfum við ötullega að því að Harpa sé ávallt á heimsmælikvarða, skapi efnahagsleg, menningarleg og samfélagsleg verðmæti á sjálfbæran hátt. Nýjar megináherslur stefnunnar eru að vera virkur þátttakandi í skapandi samfélagi, að vera táknmynd gæða, standa fyrir mannbætandi upplifun og tryggja að húsið sé í raun og sann okkar allra.”
Stjórnarformaður Hörpu hvetur til frekari rannsókna
„Þegar öllu er á botninn hvolft er verðmætasköpun hornsteinn hvers samfélags, nokkuð sem stendur undir hagvexti og lífsgæðum,“ segir Ingibjörg Ösp Stefánsdóttir, formaður stjórnar Hörpu, í tilefni af útgáfunni. „Það er einmitt þessi hugmynd um verðmætasköpun fyrir samfélagið allt sem varð til þess að á síðasta ári hafði Harpa frumkvæði að því að sett var í gang vinna við að kortleggja efnahagslegt fótspor þeirrar starfsemi sem fer fram á vettvangi hússins. Í skýrslunni er horft til allrar starfsemi sem fram fer í Hörpu og tekið tillit til beinna, óbeinna og afleiddra áhrifa af starfseminni, meðal annars á nærliggjandi þjónustuveitendur og komur ferðamanna til landsins.“
Ingibjörg segir Hörpu ekki aðeins verðmæta í efnahagslegu tilliti. „ Það er hins vegar ljóst að Hörpuáhrifin verða ekki aðeins metin í krónum og aurum og þörf er á frekari rannsóknum til að leggja mat á samfélagsleg og menningarleg áhrif. Í greiningarvinnunni komu einnig fram ýmis dæmi um þau víðtæku áhrif sem tilkoma Hörpu hefur haft á atvinnulíf menningar og skapandi greina og samfélagið allt.”
Boðið er upp á samtal um Hörpu-áhrifin á morgunfundi í Kaldalóni í Hörpu miðvikudaginn 9. apríl kl. 8:30 - 10:00.
Aukin tækifæri með Hörpu
Listamenn og skipuleggjendur tónleika sögðu í samtölum við skýrsluhöfund að Harpa hefði „umbreytt tónlistarlífi á Íslandi“ og „skapað tækifæri fyrir fólk til að vera fagfólk í sinni grein“. Stór menningarhús eins og Harpa skapa jafnframt vettvang fyrir íslenskt listafólk til að koma fram á sviði sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar. Við gerð skýrslunnar bentu sumir viðmælendur jafnframt á þá þekkingu og reynslu sem skapast þegar íslenskir listamenn og íslenskt tæknifólk tekur þátt í samstarfi við erlenda flytjendur og skipuleggjendur. Slíkt mætti þó rannsaka mun betur. Tilkoma Hörpu hefur aukið sérhæfingu og fagmennsku í viðburðahaldi, tækni, hönnun og skipulagningu. Stórir viðburðir skapa aukna eftirspurn eftir stoðþjónustu, eins og markaðssetningu, miðasölu og öryggisgæslu, sem eflir sérþekkingu á landsvísu. Tónlistarmiðstöð benti skýrsluhöfundi á að gæði og nýting annarra tónlistarsala hafi aukist með tilkomu Hörpu.
Verðmætir ferðamenn
Starfsemi eins og sú sem fer fram í Hörpu hefur áhrif á fjölda ferðamanna til Íslands. Í skýrslunni kemur fram að líklega komi um 1% ferðamanna til Íslands gagngert til vegna viðburða í Hörpu. Um 10% erlendra ferðamanna komu til Íslands vegna „sérstaks viðburðar á Íslandi“ og má ætla að hluti af þessum viðburðum hafi verið haldinn í Hörpu.
Menningarhús líkt og Harpa eiga þátt í að efla menningarferðaþjónustu og laða þannig að gesti sem koma sérstaklega til að njóta tónleika, hátíða og hvers kyns menningarviðburða sem boðið er upp á í húsinu. Þá koma einnig gestir sem eru í viðskiptaerindum og sækja ráðstefnur og fagviðburði. Þrátt fyrir að ekki séu til nákvæmar tölur um fjölda ferðamanna sem koma eingöngu vegna viðburða í Hörpu, er ljóst að slíkir viðburðir stuðla að aukinni aðsókn ferðamanna til landsins. |