Skapandi greinar um víðan völl - fyrsta málþing RSG
Á málþingi í Mengi 4. mars síðastliðinn var ljósi varpað á breidd skapandi greina. Katrín Jakobsdóttir, þáverandi forsætisráðherra, og Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, fluttu innblásandi ávörp. Hugvekjur Braga Valdimars og Sigurlínu, sem bæði starfa í bransanum, veittu innsýn í reynslu þeirra af sköpun og skapandi greinum. Rannsakendur frá ólíkum háskólum og fagsviðum fluttu erindi þar sem farið var um víðan völl en samnefnari allra erinda var sköpun og atvinnulíf, innblástur og framfarir.
Skýrt var frá hlutverki Rannsóknaseturs skapandi greina og lykiltölur kynntar, sem nýtast við ákvarðanatöku, bæði fagvettvangs og stjórnvalda og undirbyggja markmiðasetningu í stefnumótun. Fjallað var um rannsóknir í listkennslufræðum þar sem tengsl lista og velferðar eru í fyrirrúmi og mikilvægi þess að fá tækifæri til að finna samhljóm með umhverfinu, sem listamenn eru vel í stakk búnir til að skapa aðstæður fyrir. Til umræðu var einnig sköpun í tengslum við hreyfanleika jaðarsvæða og mótun þeirra, um skapandi ferli staða eða áfangastaða þar sem umhverfinu er gefin rödd. Greint var frá rannsókn um starfsumhverfi menningarstjórnenda á Íslandi sem sýnir m.a. hið háa hlutfall kvenna í æðstu stjórnunarstöðum og mögulegum ástæðum var varpað fram. Rætt var um viðburðarstjórnun innan skapandi greina, áhrif og þýðingu þeirra fyrir samfélagið og í því samhengi var komið inn á bakslag í bæjarhátíðum á landinu. Áheyrendur fengu að kynnast athyglisverðu “hugverkastríði” listamannsins Banksy, sem veitir góða innsýn í kerfið sem listamenn þurfa að notast við til að verja verk sín. Fræðast mátti um sjálfbærni og hina gríðarlegu mengun í tískuiðnaði og nauðsyn þess að betrumbæta verkferla. Tenging var gerð milli frumkvöðla og skapandi greina og imprað á þeim tækifærum sem felast í því að samþætta viðskiptaumhverfið og skapandi greinar. Að lokum var sýnt svart á hvítu hversu stór geiri skapandi greinar eru og hversu vel það borgar sig að fjárfesta í skapandi greinum.
Vonast er til þess að umræðan um mikilvægi skapandi greina skjóti rótum sem víðast í samfélaginu og leiði til aukinnar rannsóknarvirkni innan sviðsins en það er eitt markmiða Rannsóknaseturs skapandi greina.
Horfa má á erindin hér.