Málþing um áhrif menningar og skapandi greina í landsbyggðum
Rannsóknasetur skapandi greina stóð fyrir málþingi þann 20. nóvember síðastliðinn í Háskólanum á Akureyri, þar sem fjallað var um áhrif menningar og skapandi greina í landsbyggðum. Málþingið var vel sótt og vakti athygli fyrir áhugaverð erindi og líflegar umræður. Málþingið hófst með opnunarávarpi Hólmfríðar Sveinsdóttur rektors Háskólans á Hólum, sem lagði áherslu á mikilvægi menningar og skapandi greina fyrir þróun landsbyggðanna.
Menning og skapandi greinar: Landfræðilegt spennusvæði?
Erna Kaaber, sérfræðingur við Háskólann á Bifröst, flutti erindi sitt „Menning og skapandi greinar: Landfræðilegt spennusvæði?“ þar sem hún fjallaði um ólíka þróun menningarstefnu á landsvísu og svo í landsbyggðum. Hún benti á að samspil menningar og nýsköpunar gæti skapað tækifæri fyrir sjálfbæra þróun og efnahagslega uppbyggingu í landsbyggðum.
Í erindinu lagði Erna áherslu á að menning og skapandi greinar gætu verið lykilþættir í að draga úr landfræðilegum mismuni og stuðla að jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis. Erna benti jafnframt á að með markvissri stefnumótun og stuðningi megi nýta þessa þætti til að efla nýsköpun, atvinnusköpun og samfélagslega þróun í landsbyggðum.
Erna undirstrikaði mikilvægi þess að samræma gagnasöfnun menningar og skapandi greina á ólíkum stjórnstigum. Einnig að þörf væri á frekari rannsóknum á því hvernig menningarstarfsemi getur haft áhrif á efnahagslega og félagslega þróun í dreifbýli og hvernig hægt sé að nýta þá þekkingu til að móta stefnu sem stuðlar að sjálfbærri þróun.
Frá sjónarhorni LungA
Á málþinginu flutti Björt Sigfinnsdóttir, meðstofnandi og fyrrum framkvæmdastjóri LungA-hátíðarinnar, erindi þar sem hún deildi reynslu sinni af uppbyggingu hátíðarinnar og áhrifum hennar á samfélagið á Seyðisfirði og víðar. Björt lýsti LungA sem einstöku samfélagi sköpunar og menningar sem hefur í 25 ár haft djúp áhrif á þátttakendur og nærsamfélagið. Hún benti á að hátíðin hafi ekki aðeins verið vettvangur fyrir listir og menningu heldur einnig fyrir sjálfsmyndarsköpun og samfélagsleg tengsl.
Hátíðin, sem hófst árið 2000, þróaðist frá tveggja daga viðburði í 11 daga alþjóðlegt verkefni með fjölda listviðburða og námskeiða sem sameinuðu listamenn og ungmenni. Björt lagði áherslu á mikilvægi þess að skapandi menningarverkefni eins og LungA fái viðeigandi stuðning, þar sem þau gegna lykilhlutverki í að efla skapandi hugsun og samfélagsþróun í landsbyggðunum. Hún hvatti til frekari vitundarvakningar innan stjórnsýslu um gildi menningarverkefna sem hreyfiafla í samfélaginu.
Rannsókn á landfræðilegum mismun í nýsköpun
Vífill Karlsson, prófessor við Háskólann á Bifröst og dósent við Háskólann á Akureyri, kynnti rannsókn sína á landfræðilegum mismun í nýsköpun á Íslandi. Hann skoðaði hvort nýsköpun fyrirtækja væri ólík eftir landshlutum og greindi sérstaklega á milli skapandi greina og annarra atvinnugreina. Í fyrirtækjakönnun sem framkvæmd var árið 2022 kom fram að í skapandi greinum fer fram mest nýsköpun af þeim atvinnugreinum sem skoðaðar voru í landsbyggðum.
Stuðningur getur eflt atvinnulíf í landsbyggðum
Stefán Pétur Sólveigarson verkefnastjóri Hraðsins, miðstöðvar nýsköpunar, fjallaði um uppbyggingu og áhrif nýsköpunarjarðvegs og hvernig stuðningur við frumkvöðla og skapandi greina getur eflt atvinnulíf í landsbyggðum.
Pallborðsumræður og lokaorð
Að loknum erindum voru pallborðsumræður undir stjórn Eyjólfs Guðmundssonar, fyrrverandi rektors Háskólans á Akureyri. Þar tóku þátt Eva Hrund Einarsdóttir framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, Örlygur Hnefill Örlygsson framleiðandi, Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi og yfirverkefnastjóri hjá Austurbrú, og Anna Hildur Hildibrandsdóttir, fagstjóri skapandi greina við Háskólann á Bifröst. Umræðurnar beindust að því hvernig best væri að nýta menningu og skapandi greinar til að styrkja samfélög í landsbyggðum og hvaða áskoranir og tækifæri væru fram undan.
Málþingið var mikilvægt innlegg í umræðuna um hlutverk menningar og skapandi greina í þróun landsbyggða og vakti upp margar áhugaverðar spurningar um framtíðarsýn og stefnumótun á þessu sviði.