Rannsóknarverkefnið Building Bridges leitar að meistaranema

Rannsóknarverkefnið Building Bridges sem hýst er við Listaháskóla Íslands, í samstarfi við Háskólann á Bifröst og York St. John University í Bretlandi, og styrkt af Rannsóknasjóði leitar að meistaranema til þess að vinna með rannsóknarhópnum að meistaraverkefni um samfélagstónlist á Íslandi og/eða Kordu Samfóníu. Verkefnið skal vera 30-60 ECTS og vera lokið í maí 2026. Nemandinn fær greiddan styrk að upphæð 1.000.000 kr. Nemandinn getur komið úr hvaða háskóla á Íslandi.

 Nánar um Building Bridges verkefnið:

Til eru margvísleg samfélagsmiðuð tónlistarverkefni þar sem unnið er með fjölbreyttum hópum og samfélögum, t.d. einstaklingum í fangelsum, skjólstæðingum heilbrigðisstofnana og einstaklingum á ólíkum aldri, með fjölbreytta kunnáttu og bakgrunn. Þessi verkefni endurspegla þá hugmyndafræði að tónlist og tónlistariðkun geti haft jákvæð áhrif á fólk og jafnvel breytt lífi þess til hins betra. Meginmarkmið þessa verkefnis er að rannsaka MetamorPhonics (MP) sem er dæmi um samfélagsmiðað fyrirtæki sem sérhæfir sig í að leiða samfélagshljómsveitir.

Tilgangurinn er að skilja margvíslega þætti MP, meðal annars með því að skoða:

bakgrunn og áhugahvöt þátttakenda

hugmyndafræði og leiðarljós MP

samanburð við önnur samfélagsmiðuð tónlistarverkefni

 

Eftirfarandi þættir eru til rannsóknar:

kennslufræðileg nálgun MP

hvernig listræn stjórnun og ákvarðanataka fer fram

hvernig bakgrunnur þátttakenda hefur áhrif á tónlistarlega nálgun

hvaða áhrif þátttaka í MP verkefnum hefur

hvort þátttaka hefur varanleg áhrif á hljómsveitarmeðlimi

hvort þáttaka hafi áhrif á lífið utan verkefnisins

 

Í verkefninu er einnig lögð áhersla á að þjálfa tónlistarleiðtoga til rannsókna á eigin starfi, þróa rannsóknaraðferðir sem snúa að samfélagsmiðuðum tónlistarverkefnum, og tryggja fjölbreyttar miðlunarleiðir á rannsóknarniðurstöðum þar sem rannsakendur, hag- og fagaðilar fá aðgengi að niðurstöðunum.

Þáttur meistaraverkefnis

Þáttur meistararannsóknar felst í að rannsaka tiltekna þætti í ofangreindu samhengi með áherslu á íslenskt samhengi. Einnig gefst kostur á að þróa og reyna þá aðferðafræði sem nýtt er í verkefninu sem samanstendur af eigindlegum aðferðum, listrannsóknum og hvernig nýta megi aðferðir heimildamyndagerðar við eigindleg viðtöl og miðlun.

 Ef vel tekst til gæti opnast tækifæri eftir þetta verkefni að vinna í tvo mánuði til viðbótar að skýrslugerð við verkefnið.

 Frekari upplýsingar veitir Þorbjörg Daphne Hall, prófessor í tónlistarfræðum við Listaháskóla Íslands, thorbjorghall@lhi.is

 Í umsókn skal koma fram nafn umsækjenda, háskóli, námsleið, fyrirhugaður einingafjöldi meistaraverkefnis. Þá skal fylgja kynningarbréf þar sem fram kemur lýsing á því sem umsækjandi hefur áhuga á að vinna að. Með umsókninni skal fylgja ferilskrá, staðfesting á skólavist og yfirlit yfir námskeið og einkunnir umsækjanda. Umsóknum skal skila á íslensku eða ensku.

 Umsóknir skulu berast fyrir 1. maí 2025 á thorbjorghall@lhi.is

Previous
Previous

Samtal um skapandi greinar: Hönnunarhugsun

Next
Next

Menningarauðlind ferðaþjónustunnar