Samtal um skapandi greinar: Nýsköpun á sviði tónlistar
Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) í samstarfi við CCP býður í samtal um skapandi greinar þriðjudaginn 11. febrúar klukkan 8:30 - 10 í húsakynnum CCP Í Grósku, 3. hæð, að Bjargargötu 1, 102 Reykjavík. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Nýsköpun á sviði tónlistar. Fundurinn verður haldinn á íslensku og erindum verður streymt.
Ólafur Bjarki Bogason er stofnandi og framkvæmdastjóri Genki, hönnunar- og tæknifyrirtæki frá Reykjavík með áherslu á tónlist. Vörur Genki hafa verið notaðar um allan heim við góðan orðstír. Nýjasta vara sem Genki hefur þróað er KATLA, einstakur hljóðgervill, innblásinn af öðru stærsta eldfjalli Íslands. Á fundinum mun Ólafur, segja frá fyrirtækinu og vegferð þess fram til dagsins í dag.
Margrét Júlíana Sigurðardóttir er stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins Moombix, sem býður upp á kennslurými og markaðstorg fyrir lifandi tónlistarkennslu á netinu. Í kennslurýminu hefur fyrirtækið þróað heilstætt umhverfi fyrir tónlistarkennslu með stafrænum tólum sem geta stutt við námið með margvíslegum hætti. Á fundinum veitir Margrét innsýn í Moombix sem var stofnað árið 2022.
Pétur Eggerz, tæknistjóri og meðstofnandi Overtune, leiðir þróun í tónlistartækni og innleiðingu gervigreindar með það markmið að veita skapandi fólki verkfæri til að láta hugmyndir sínar verða að veruleika. Með rúmlega áratugar reynslu sem tæknistjóri hefur Pétur lagt áherslu á að hagnýta nýjustu tækni til að takast á við fjölbreyttar og skapandi áskoranir. Overtune var stofnað árið 2020 og hefur vakið athygli bæði á íslenskum og erlendum mörkuðum.
Í kjölfar erinda lýkur streyminu og opnað verður fyrir umræður meðal fundargesta sem Anna Hildur Hildibrandsdóttir stýrir.
Vinsamlegast skráið mætingu (á staðinn) hér. Athugið að sætaframboð er takmarkað.
Skráningu lýkur kl. 12 mánudaginn 10. febrúar.
CCP býður fundargestum upp á kaffi og léttan morgunverð.